Þrautir Herkúlesar

Það sem þér dettur ekki í hug!

föstudagur, júní 26, 2009

Kosturinn við að eiga blogg er að maður getur tekið mjög langar pásur upp úr þurru án þess að það komi í bakið á manni. Þetta get ég t.d. ekki gert í vinnunni eða skólanum. Vissulega er líf íslenskumælandi fólks ögn minna skemmtilegt þegar þetta blogg er illa uppfært en gleðitíðindin dynja nú hreinlega á þjóðinni þessa dagana svo það kemur vart að sök.

Orðinn 22 og næstum 23 ára gamall hef ég tekið upp á því að muna draumana mína upp á síðkastið. Þannig hefur mig dreymt nokkrar minnisstæðar martraðir síðustu nætur. Nægir þar að nefna að ég var ofsóttur af hommanum sem var böstaður fyrir smygl í Brasilíu og hafði hann feita konu sér til fulltingis. Veit ekki alveg hvernig ég á að skilja þetta en ég slapp með því að hlaupa niður bratta grasbrekku. Annar draumur var á þá leið að munnurinn á mér rifnaði upp og ég varð ljótur (svo langt sem það nær þegar við erum að tala um mig).

Ég verð að segja að ég er mjög óánægður með fólk sem er að nota "maður skammast sín bara fyrir að vera Íslendingur"-frasann þessa dagana. Hvernig í ósköpunum er hægt að segja slíkt eftir allt sem þessi litla þjóð hefur afrekað? Á það virkilega að breyta öllu að nokkur skemmd epli hafi fokkað upp? Eigum við ekki ennþá Gunnar á Hlíðarenda, Halldór Laxness, Lindu Pé og Björgvin Pál Gústavsson?


Lífið snýst annars alveg helvíti mikið um íþróttir þessa dagana. Gef mér samt tíma til að sinna bakkusi þegar sá gállinn er á manni (þegar það er helgi). Þýðir lítið annað þegar maður hefur endurheimt snillinga á borð við Helga Hrafn úr helju (Ástralíu) í skamman tíma. Síðustu helgar hafa verið með þeim hætti að ég fer út að djamma, kem heim á ókristilegum tíma og er svo vakinn fyrir hádegi af fjórum frábærum krökkum sem öll eru undan Kristjáni bróður mínum kominn. Það er helvíti hressandi að detta út í smá fótbolta með þeim þegar maður er ennþá óökuhæfur. Svo tekur maður ljúfan blund eftir að þau eru farin og undirbýr sig fyrir næstu gleði.


Svo ég haldi lesendum sem ekki standa næst mér uppfræddum þá hefur Svíþjóðarför minni verið aflýst vegna fjölda áskorana. Ef ég hefði farið þá hefði það ekki verið alveg á réttum forsendum þar sem ég var ekki alveg að fíla fjármálaverkfræðina. Hún var svolítið eins og kærasta sem þú vilt helst bara ríða og ekki eiga önnur samskipti við en lyktar samt illa þannig að þú nærð ekki heldur að njóta þess til botns. Þið skiljið hvað ég á við. Dett í iðnaðarverkfræðimaster í haust.


Annars segi ég bara skál þar sem það er að koma helgi. Vænti þess að sjá einhver trýni í bænum og ef það er kominn mánudagur þegar þetta er lesið, eða jafnvel þriðjudagur, þá er það bara næsta helgi. Hafið það gott.

sunnudagur, apríl 26, 2009

Samviskusamur eins og ég er þá hef ég lagt bokkuna til hliðar og hyggst halda henni þar fram yfir próf. Þetta þýðir að ég fékk mér ekki einn bjór í gær þó sannarlega væri tilefni til, enda kosningadjamm í hópi með júróvisjondjammi yfir partý sem maður ætti alltaf að taka. Í staðinn lá ég einn uppi í sófa og fylgdist með kosningatölum, og reyndi að sjá möguleikann á því að systa færi inn á þing, og lagði mat á fjárfestingar fyrirtækja þess á milli. Ekki var annað að sjá en að flestir væru fegnir að kosningabaráttunni væri lokið og ég get rétt ímyndað mér að menn hafi slett ærlega úr klaufunum á kosningavökum flokkanna, hversu smáar eða stórar sem þær voru. Þess vegna, og vegna þess að ég nenni að gera allt nema að læra, fór ég að velta fyrir mér hvaða lag væri vinsælast hjá DJ-um kosningavakanna. Ég komst að eftirfarandi niðurstöðu.


Samfylkingin: We are the champions með Queen. Það er bara basic. Flokkurinn orðinn langstærstur á landinu og sigurvegari í fjórum af sex kjördæmum, þar á meðal suður-kjördæmi. Hugsanlegt að Whatever you like með T.I. hafi líka fengið að hljóma í ljósi ráðandi stöðu flokksins.


Sjálfstæðisflokkurinn: Tubthumping með Chumbawamba. Get ímyndað mér að það sé stemning í því að öskra "I get knocked down, but I get up again, you´re never gonna keep me down," en kannski er ekki þessi stemning í sjálfstæðisflokknum, ég þekki það ekki. Svo er kannski við hæfi líka að raula millikaflann; "he sings the songs that remind him of the good times. He sings the songs that remind him of the better times."


Frjálslyndir: Fiskurinn hennar Stínu með Áróru. Held að þetta lag sé alltaf sungið þar sem að frjálslyndir koma saman, og ég fíla það. Fiskinn minn, nammi nammi namm.


Vinstri grænir: Stórasta land í heimi með BlazRoca. Hver þarf Evrópusamband þegar hann býr í stórasta landi í heimi? Erpur er sjálfur vinstri-grænn og taka flokksfélagar hans jafnan vel undir í línunum "en ekki tala um ESB, því möppudýrin eru þó skárri hér, en í Brussel."


Framsókn: Sjómannavalsinn með Hjaltalín. Þetta er vinsælasta lagið á Íslandi í dag skv. vinsældalista Rásar2 og hlýtur því að vera það sem fólk vill heyra.


Borgarahreyfingin: Held að það hafi ekki tekist að sammælast um að klára heilt lag á kosningavöku Borgarahreyfingarinnar. Fólk úr ólíkum áttum, með ólíkar skoðanir sem vill ná sínu fram... og allur sá pakki.


Lýðræðishreyfingin: Einn á flakki með Lukku Láka (fann þetta bara á ensku). Muna kannski ekki allir eftir þessu en þetta kom alltaf í endann á Lukku Láka myndunum. Eeeeeiiinn á flakki... eeeiiinn á flakki... einhvers staðar verður þúúúú, ííí nóóótt. Mér fannst Ástþór samt flottur í umræðuþættinum í kvöld, bara svo það komi fram.


p.s. Það er greinilega betra að klára verkfræði heldur en stjórnmálafræði til að spá fyrir um úrslit kosninga.

fimmtudagur, apríl 23, 2009

Ég held að fólkið sem mætir á borgarafundi RÚV í aðdraganda kosninganna sé upp til hópa leiðinlegasta fólk sem landið byggir. Greinilega aðallega fólk sem er löngu búið að ákveða hvað það ætlar að kjósa og er þess vegna bara þarna til að klappa fyrir sínum fulltrúa og segja "úúúú" eða hlæja þegar hinir fulltrúarnir eru að tala. Svo koma "spurningar úr sal" sem eru náttúrulega bara einhverjar spurningar frá einhverjum flokksfolöldum sem eru ætlaðar til að koma höggi á þá sem spurningunum er beint til. Ömurlegt. Svo þurfa fulltrúarnir alltaf að vera svo ógeðslega fljótir að svara að það er ekki nema orðheppnasta fólki í lófa lagt að segja eitthvað gáfulegt. Þetta er svo kjánalegt eitthvað.

Já og já. Kosningar í nánd og þrátt fyrir að nær allur minn tími (fyrir utan þegar ég þarf að fara í bubble struggle, póker, fótbolta, horfa á fótbolta, horfa á lélegt sjónvarpsefni, borða og sofa) fari í prófalestur þá hef ég aðeins getað fylgst með kosningaumræðunni. Og búandi yfir einhverri náðargáfu hvað varðar að spá fyrir um hluti þá er hérna komið að föstum lið, nefnilega kosningaspá doktorsins fyrir alþingiskosningar 2009:


1. Samfylking hlýtur að fá mest fylgi í ljósi þess að systir mín er þar á lista. Einnig notar flokkurinn listabókstafinn S sem er sá svalasti í bransanum. 21 þingmaður.

2. Vinstri-græn njóta góðs af því að hafa ekki verið í ríkisstjórn og bera því minni ábyrgð á því að bankakerfið hrundi. Einnig eru Svandís Svavarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir mjög sexý. 17 þingmenn.

3. Sjálfstæðisflokkurinn var með mjög skemmtilegan leik á heimasíðu sinni í síðustu kosningum sem var einhvers konar afbrigði af Pacman. Nú er engan Pacman að finna og reikna ég því með miklu falli flokksins. Einnig er erkióvinur minn Guðlaugur Þór búinn að vera mikið í sviðsljósinu og það veit aldrei á gott. 14 þingmenn.

4. Ég þekkti einu sinni stelpu í sveitinni sem vildi bara nota grænan kork í sundtímum af því að grænn er litur Framsóknarflokksins. Hin ört minnkandi stétt bænda mun veita nokkrum brautargengi en Sigmundur Davíð formaður, sem ég hélt að væri flottur en veit núna að er plebbi, kemst ekki á þing. 9 þingmenn.

5. Borgarahreyfingin hlýtur að ná inn tveimur mönnum því öllum finnst grillaðir borgarar góðir. 2 þingmenn.

6. Frjálslyndir ná ekki inn manni og mötuneytisstjóri þingsins sér fram á góðæri.

7. Lýðræðishreyfingin nær heldur ekki inn manni því Ástþór Magnússon fær aldrei að vera með, eins og hann hefur margoft komið inn á. Þess má hins vegar til gamans geta að hann er í hópi þess eðalfólks sem var actually boðið í partýið sem Rottweilerhundar sungu um um árið.


Mér þykir leiðinlegt að vera búinn að eyðileggja spennuna fyrir mörgum með því að upplýsa hvernig kosningarnar munu fara en það eru hvort sem er eflaust margir þarna úti sem ættu frekar að eyða tímanum í að lesa fyrir próf en að taka kosningavöku á þetta. Næst ætla ég að eyðileggja fyrir þeim sem ætla að fylgjast með íslenska boltanum í sumar.

p.s. Ég ætlaði reyndar líka að segja frá því hvað við Krissi vorum fáránlega menningarlegir um síðustu helgi. Sáum Draumalandið á föstudagskvöldið og svo leiksýninguna Ég heiti Rachel Corrie á laugardagskvöldið. Við erum enda báðir komnir í meistaranám í háskóla og þá er maður ekkert að fara á Fast and the Furious 14. Má segja að maður hafi orðið margs vísari.

þriðjudagur, mars 31, 2009

Ég er farinn að skilja hvernig þetta kommentadæmi virkar. Ef ég sleppi því að blogga í tvo mánuði er smá möguleiki á því að fá komment frá slatta af fólki en annars mun ég þurfa að gera mér að góðu athugasemdir frá sirka tveimur aðilum, jafnvel þó færslan sem ég skrifi sé álíka löng og biblían.


Mér barst reyndar í dag skemmtilegt komment við eldgamla færslu um körfuboltaspjöldin mín gömlu, frá aðila sem hefur hug á að eignast þau. Ég vil þess vegna taka skýrt fram hér að þessi spjöld eru ekki til sölu nema gegn mjög háu verði (og/eða blíðuhótum þokkagyðja, en þær safna víst sjaldnast körfuboltaspjöldum). Svo háu verði að á þessum tímum þykir mér næsta víst að enginn sé tilbúinn að greiða það.


Helgin sem nú er nýliðin fór að mestu í lærdóm fyrir utan djamm bæði kvöldin. Ég ætti í raun að fá einhvers konar verðlaun fyrir að hafa getað rifið mig upp á sunnudaginn til að fara í skólann og vinna eitthvað hópverkefni (TAF, TARP og TALF... hver hefur ekki gaman að því?).

Einnig ætti ég, ásamt tveimur Röggum einum Magga og einum Krissa, að fá einhvers konar verðlaun fyrir að labba niður í bæ á laugardagskvöldið. Lentum í mesta snjóstormi sem geysað hefur á Íslandi. Drýgðum við allir mikla hetjudáð og minntum á persónur þáttaraðarinnar Band of brothers hvar við börðumst í gegnum storminn og pössuðum okkur á að skilja engan mann eftir en Krissi var mjög nálægt því að gefast upp á Snorrabrautinni. Þá sagði ég við hann: "Hvað ef að gæjarnir sem sigldu að ströndum Normandí hefðu bara skitið í brækurnar og ákveðið að reyna að synda til baka!?!" Svo gaf ég honum kinnhest og hann komst til sjálfs síns, og gott ef hann varð ekki forystusauður hópsins í kjölfarið.

Við komumst sem betur fer lífs af niður í bæ en þessi ferð kenndi mér að meta betur það góða líf sem maður lifir. Það virkaði ekkert á dömurnar. Þær vilja greinilega harða gæjann sem er alveg sama um fokking lífið. Lenti samt í puttastríði við einhverja útlenska stelpu inni á kaffibarnum. Veit ekkert um hver aðdragandinn að því var. Vann stríðið eftir rugl harða baráttu en tapaði dömunni.


Er hægt að vera meira fullorðins en að lesa Íslandsklukkuna áður en maður fer að sofa? Ég er alla vega að því núna. Djöfull sem ég fíla þessa þroskaheftu bóndadurga sem Laxness getur búið til. Ég held jafnvel að innst inni sé ég þroskaheftur bóndadurgur.


Skotland - Ísland er á miðvikudaginn og Raggi T. hefur fært mér þær gleðifréttir að leikurinn verði í opinni dagskrá í frægasta barnaperrahúsi landsins, svo þar finniði mig á miðvikudagskvöld. Ég hlakka óeðlilega mikið til að sjá þennan leik og hvaða byrjunarliði verður stillt upp. Djöfull vona ég svo líka að við vinnum. Ég er mjög bjartsýnn. Reyndar er ég svo bjartsýnn að ég hugsa stundum til þess hvernig það yrði að komast á HM í Suður-Afríku. Menn virðast sammála um að það sé fáránleg hugmynd en ef einhver er tilbúinn að veðja við mig um þetta þá er það sjálfsagt gegn þessum forsendum:

Ísland kemst áfram = ég fæ 100.000 kall frá þeim aðila
Ísland kemst ekki áfram = ég borga þeim aðila 5.000 kall.


p.s. veit einhver ástæðuna fyrir því að páskaegg komu í búðir fyrir hálfum mánuði en samt eru ennþá tvær vikur í páskana? Er fólk almennt að gefa skít í hefðir og étur páskaegg löngu fyrir páskadag?

p.p.s. fór að hugsa málið og datt niður á þá niðurstöðu að kannski sé þetta til þess að fólk geti keypt páskaegg fyrir þá sem búa í útlöndum. Er það ekki líkleg skýring?

fimmtudagur, mars 26, 2009

Jæja, það er kominn tími á þetta.


Ég er reyndar núna búinn að þróa með mér ný álagsmeiðsli sem ég kýs að kalla badminton-úlnliðinn, þannig að það er frekar óþægilegt að vera að hamra á lyklaborðið. Fór sem sagt í fyrsta skipti í badminton í kvöld og þetta er afraksturinn. Ég sé ekki fram á að geta rúnkað mér með hægri næstu daga. Ef ykkur fannst þetta of miklar upplýsingar þá ættuði kannski að lesa aðra dagbók.


En já, vá, hvar skildi ég eiginlega við ykkur? Ég verð bara að biðjast afsökunar á þessu getuleysi síðustu (*fer og tékkar hvenær síðasta færsla var skrifuð*) tvo mánuði eða svo. Samt hef ég haft um svo ógeðslega margt gott að blogga. Reyndar get ég ekki sagt frá því öllu á svona opnu vefsvæði, en djöfull langar mig til þess. Sumt verður að fara í einkadagbókina, þannig er það víst.

Reyndar gerðist eitt (og jafnvel fleira) leiðinlegt á þessum tíma sem liðinn er frá því ég bloggaði almennilega síðast. Ástkærir foreldrar mínir hafa ákveðið að skilja eftir að hafa verið gift í sirka 100 ár ("ha, skilja hvað? afstæðiskenninguna?" hugsar kannski einhver, en hann er þá bara fokking heimskur). Ég veit að þeir sem þekkja foreldra mína eiga örugglega erfitt með að trúa þessu en svona er þetta nú bara. Ég er svona að jafna mig á þessu en ég verð að segja að þessu bjóst ég alls ekki við. Tölfræðin sýnir hins vegar að þetta getur gerst á bestu bæjum. Vonum bara að þau verði hamingjusöm svona í sitt hvoru lagi.


En já, að meira hressandi dóti. Ég held að um það leyti sem ég skellti mér í þessa bloggpásu hafi Gents-menn verið á leið í sumarbústað. Djöfull var það eitthvað sem ég þurfti á að halda. Ef það væri hægt að vinna við að tjilla í heitum potti með ískaldan carlsberg á kantinum úti í íslensku náttúrunni og hlusta bara á þögnina og fuglahljóð til skiptis, þá myndi ég sætta mig við 200.000 á mánuði. Elska þetta. Ekki er svo verra að hlusta á kempusögur og pælingar frá sínum bestu vinum á meðan maður virðir fyrir sér stjörnubjartan himininn og hugsar um hvað lífið er frábært. Nei, djöfull var þetta hommalegt. Ég drakk mjög mikið af bjór þarna og borðaði kjöt, best að það komi fram.


Skólinn hefur auðvitað tekinn sinn tíma síðustu vikur og nú er mjög líklegt að ég muni yfirgefa klakann næstkomandi haust til að sinna honum. Þannig er nefnilega mál með vexti að ég, Knútur og Eymi (vinir mínir í gegnum verkfræðina og eðalnáungar) höfum ákveðið að skella okkur til Lundar í Svíaríki til að eyða þar vetrinum í landi munntóbaks og ABBA og klára eins og tvær annir af okkar mastersnámi. Ég er orðinn gífurlega spenntur fyrir þessu enda sé ég fram á mikið unaðslíf þarna. Knútur og Eymi eru báðir miklir meistarar og það í raun skiptir ekki máli hvernig þessi skóli er og stemningin í Svíanum almennt, þetta verður snilld hvort sem er. Þeir félagar fóru á kostum í bænum á dögunum á "kvöldi hinna miklu áskorana". Eftir það kvöld höfum við ákveðið að síðasti föstudagur í hverjum mánuði muni vera svokallað challenge-night á meðan við erum þarna úti. Það leggst vel í mig.

Reyndar lenti ég í helvítis veseni þetta sama kvöld. Eins og allir sem mig þekkja vita þá get ég verið ansi veikur fyrir heitum skvísum (hver er það ekki má ég bara spyrja?). Ef þær biðja mig um greiða er alla vega ólíklegt að ég segi nei. Þess vegna kemur það kannski ekki á óvart að þegar stelpa bað mig um að "lána sér skilríki svo hún gæti reddað frænda sínum inn á Hressó" að þá sagði ég bara já. Svo fór hún út með ökuskírteinið mitt og sagðist myndu gefa mér goooood lovin þegar hún kæmi til baka. Líður nú og bíður uns karlsonur fattar að stelpan er kannski ekki alveg svo saklaus. Við kíktum því út og sáum að hún var á bak og burt.

Það varð mér til happs að vera gæddur ómannlegum einkaspæjarahæfileikum en með margslunginni rökfræði tókst mér að fatta að stelpan og frændi hennar hefðu farið á apótekið. Þangað skundaði ég og viti menn, stelpan var þar stödd á barnum í sleik við "frænda" sinn, líklega sigri hrósandi yfir vel heppnuðu skilríkjaráni. Það var því vel vandræðalegur svipurinn sem kom á þau þegar inspector alvitur nálgaðist glottandi við tönn. En þó ég sé pottþéttur í að upplýsa sakamál þá held ég að ég sé ekki góður í að finna refsingu við hæfi. Alla vega lét ég nægja að taka við ökuskírteininu og bjórnum sem strákurinn var að kaupa, og þótti mér það sanngjarnt. Knútur vildi hins vegar murka lífið úr stráknum en þrátt fyrir að vera nafni krúttlegasta ísbjörns heims þá á Knútur það einmitt til að vera mjög ofbeldisfullur þegar hann er við skál.


Hmm, ég býst við að maður geti dottið úr æfingu í bloggskrifum eins og öðru, en þetta fer að verða ágætt. Eitt að lokum. Núna er ég búinn að vera veikur síðustu daga og af því tilefni fékk ég lánaða 3. seríu af desperate housewives hjá systur minni og horfði á hana á einni helgi (djöfull sem ég fíla Susan maður, það er scary). Þá fór ég að hugsa um hvað lífið getur verið mikil rútína, því ég held að nákvæmlega sama staða hafi verið uppi fyrir ári síðan nema hvað að þá kláraði ég 1. og 2. seríu í flensunni. Hins vegar, eftir því sem ég hugsaði málið betur, þá er lífið kannski alls ekki nein rútína. Væri gamla settið þá að skilja, ég að fara til Svíþjóðar og United að tapa fyrir Fulham? Nei ó nei, sem betur fer er ekki allt öruggt í þessum heimi.


p.s. Bara svona til öryggis, ef fólk var ekki búið að sjá þetta, endilega tékkið á þessu vídjói úr Íslandi í dag. Ég lá í gólfinu á kaflanum frá 2:50 mín. til 3:30. Einnig á 6:48 til 6:54. Sértu súr þá held ég að það sé alveg nóg að horfa á þetta. En kannski er ég bara svona mikill fokker.

fimmtudagur, mars 12, 2009

Ég er mjög feginn að kunna ennþá passwordið inná þessa síðu því mér finnst gaman að blogga. Ég mun skrifa mjög góða færslu hérna um helgina til að fagna því að ákveðnu skeiði í mínu lífi sé lokið. Þangað til segi ég bara góðar stundir.

P.S. Þessi færsla telst sem alvöru færsla bara svo það sé alveg á hreinu.

mánudagur, janúar 26, 2009

Jæja, maður hatar greinilega ekkert að taka góðar bloggpásur. Vegna fjölda áskorana og hótana um líkamsmeiðingar hef ég samt ákveðið að henda inn færslu.

Ég er búinn að vera virkilega duglegur að fara í leikhús upp á síðkastið. Fór að meðaltali tvisvar sinnum í síðustu viku. Fór fyrst á Fló á skinni með Dísu í tilefni þess að hún vann spurningakeppni hér á þessu bloggi fyrir svona fjórum árum. Þetta er fyndnasta leikrit sem ég hef séð og hreinlega yndislegt að geta notið svona sýningar í þessu svartnætti sem ríkir í janúar.

Seinni sýningin sem ég sá var svo Fólkið í blokkinni. Fjallar um fólk í blokk sem býr til söngleik. Mér finnst þetta mjög skemmtileg pæling og hyggst mæla fyrir því að við í blokkinni minni gerum slíkt hið sama. Það ætti að ýta undir betri vinskap nágrannanna hér. Hef að vísu litla trú á að dópdílerinn í næsta stigagangi sé til í að joina en ef hann er til sé ég fram á mjög spennandi leikrit. Ég myndi að sjálfsögðu eiga mitt lag í söngleiknum og hyggst ég nefna það "Þrír fermetrar". Það mun fjalla um herbergið mitt.


Tók rólegustu helgi í manna minnum núna um helgina. Hef nefnilega varla náð mér ennþá eftir föstudagskvöldið í síðustu viku. Það byrjaði ósköp sakleysislega með fríum bjór í partýi en á laugardagsmorgninum spurði litla systir mín af hverju það væri stór ælublettur á gallabuxunum mínum. Kvöldið fór sem sagt í algjört rugl og herma heimildir að það hafi m.a. falið í sér ælu í leigubíl og annað í þeim dúr. Skemmtilegt að taka upp á því núna þegar maður er kominn í meistaranám í háskóla.


Kveð að sinni Binni og lofa að blogga aftur innan skamms.

miðvikudagur, janúar 14, 2009

Það er alltaf gaman (nei ok, það er aldrei gaman, en samt...) að velta fyrir sér samkeppninni milli kók og pepsi. Frá alda öðli (lengi alla vega) hefur kók haft vinninginn þar og í raun virðist heimurinn hafa viðurkennt þá staðreynd að kók sé betra en pepsi. Sumir segjast reyndar ekki finna neinn mun en þá aðila mætti alla jafna stimpla sem hálfvita. Samt er pepsi ekkert að gefast upp og það selst reyndar örugglega bara mjög vel miðað við aðra gosdrykki. Miklu er varið í að auglýsa drykkinn og aðilar á borð við David Beckham, Britney Spears, Beyonce og Eið Smára Guðjohnsen hafa verið fengnir til að auglýsa drykkinn. Kók-menn eru hins vegar með sjálfan jólasveininn á sínum snærum og þurfa ekki að hafa miklar áhyggjur.


Eeen, alla vega, ég ætlaði nú ekkert að tala um þetta. Ég var bara svona að spá í, að í raun er samkeppni milli vörutegunda á Íslandi oft mjög lík þeirri hjá Kók og Pepsi. Það er alltaf þannig að eitt vörumerki er að seljast mjög vel, á meðan annað selst ekki jafn vel en er samt alltaf þarna í hillunni þegar maður mætir í búðina. Ef við skoðum t.d. tannkrem, þá myndi ég ætla að Colgate sé kók tannkremanna, og Sensodyne pepsiið. Þannig hefur það verið síðan ég man eftir mér og breytist bara ekki. Svo mætti gera eftirfarandi lista sem ég skil ekki hvernig ég nennti að gera:

Kók - Pepsi

Hunts - Libby´s

Ora - Rassabora*

OS fetaostur - Mjólku fetaostur

Nike - Adidas

Víking gylltur - Egils gull

Smirnoff - Finlandia

Toyota - Hyundai


Er þessu ekki örugglega rétt raðað hjá mér? Og ætli þetta geti breyst með öflugri markaðsherferð eða einhverju slíku? Tæki það kannski tugi ára að breyta því hvað er kók tómatsósanna?
En þó að ég efist um að pepsi verði nokkurn tímann vinsælla en kók þá geta hlutirnir blessunarlega breyst. Sem dæmi þá var VISA vissulega kók kreditkortanna hérlendis á árum áður öfugt við það sem var í hinum stóra heimi. Nú er það að breytast eða hefur þegar breyst og Mastercard orðið kók kreditkortanna.


Hmm, þetta var alveg óhemju tilgangslaus færsla og ég veit bara ekkert hvert ég er að reyna að fara hérna þannig að ég ætla bara að hætta að tala. Alla vega, mér finnst kók gott.

Kv. ykkar einlægur.

*Ég mundi ekki neitt annað en ORA. Einhverjar hugmyndir? Bíldudals grænar eða?

föstudagur, janúar 09, 2009

Gott að ég gleymdi bara að hafa eitthvað smá grín í áramótaannálnum. Það er samt bara þannig með annála að þeir eru ekkert grín. Spyrjið bara Björn Malmquist, hann ætti að vita það.


Ég verð ekki sérstaklega oft reiður en mér finnst afskaplega pirrandi þegar ég heyri eða les einhvers staðar að íslenska þjóðin sé að gjalda fyrir sitt bruðl síðustu ár með þeim hörmungum sem yfir hana hafa dunið síðustu mánuðina. Eins og sá ágæti maður Pétur Blöndal segir í lok þessarar fréttar, að tónlistarhúsið við höfnina eigi að standa eins og það er núna "sem minnisvarði um þá óráðsíu og bruðl sem öll þjóðin var að gera."

Hvurn andskotann var ÉG að bruðla fyrirgefðu? Mér var skapi næst að henda púða í 20" heimilissjónvarpið þegar hann sagði þetta. Ég var ekki rassgat að bruðla, ég ætla bara að fullyrða það, og ég er hluti af þjóðinni, svo ég vil ekki hafa það að misvitrir menn séu að setja fram svona fullyrðingar. Þessi litli hluti tónlistarhússins sem er tilbúinn má frekar standa sem minnisvarði um hvað ráðamenn þjóðarinnar eru miklir fuckers.

xoxo.

mánudagur, janúar 05, 2009

Áramótaanall 2008

Já, það er komið að því. Nú er ég búinn að liggja í sófanum, éta waldorf-salat og horfa á misskemmtilegt sjónvarpsefni nógu lengi. Ég er sem endurnærður eftir þetta jólafrí og ég get vart beðið eftir að komast í átök hversdagsins. Komið með lyftingalóðin til mín. Skellið námsbókum í andlitið á mér. Þarf ekki að fylla á bílinn? TIL ER ÉG. Hversdagslíf, komdu fagnandi!!

Nei, nú er ég að sprella. Ég elska jólafríið og er alltaf jafn svekktur þegar því lýkur. Er engin stemmning fyrir því að lengja þetta helvíti eða? Ég er fáránlega sáttur með jólin sem og blessuð áramótin sem fá hæstu einkunn.

En þá að áramótaanalnum, sem sökum lélegs minnis verður byggður á því sem ég hef skrifað á árinu svo við skulum vona að það sé eitthvað.


JANÚAR

Ég finn sömu tilfinningu nú og ég fann þá. Orka og kraftur til að gera eitthvað af viti og láta af einhverjum löstum. Þannig gerði ég fimm áramótaheit sem gekk ágætlega að uppfylla. Ég ákvað einnig að það væri nóg komið af aumingjaskap og skellti mér í sjö-kúrsa-önn til að geta klárað b.s.-gráðu í iðnaðarverkfræði um vorið. Það tókst að sjálfsögðu og stóð ekki einu sinni tæpt.


FEBRÚAR

Tók þá helvíti erfiðu ákvörðun að fara í útskriftarferð Vélarinnar til Asíu. Menn voru að tala um að hún gæti kostað um 270.000. Lítið vissum við þá um fall krónunnar. Eftir að hafa tekið þessa ákvörðun fórum við Eymundur Sveinn Leifsson, sá mikli snillingur, á stúfana til að safna auglýsingum í blað Vélarinnar, svona í von um að hafa efni á ferðinni. Það gekk nú ekki vel til að byrja með og sögðu t.d. allir bankarnir nei við því að auglýsa og töluðu eitthvað um að staðan væri ekki nægilega góð hjá þeim. En um leið og við kveiktum á sjarmanum var ekki að sökum að spyrja, og við söfnuðum heilum helling af péningum.

Í febrúar lagðist ég í einhver fáránleg veikindi sem enduðu með því að ég horfði á tvær seríur af Desperate Housewives á einni helgi. Það verður seint toppað. Ég hjálpaði líka Röskvu að vinna stúdentakosningarnar og gerði þar gæfumuninn að vanda.


MARS

Mars er frægur innan verkfræðinnar fyrir öll verkefnin sem maður er að gera þá. Þess vegna gefst lítill tími fyrir annars konar ævintýri. Ég hélt áfram að safna auglýsingum með Eyma og við gerðum frábæra hluti þar. Svo skráði ég lærisveina mína í Vinningsliðinu til keppni í Carlsberg-deildinni þar sem ætlunin var að koma, sjá og sigra um sumarið.


APRÍL

Þessi hræðilegi mánuður sem felur í sér prófalestur byrjaði heldur betur ágætlega, t.a.m. með því að ég varð Íslandsmeistari í knattspyrnu verkfræðinema ásamt liðsfélögum mínum. Skoraði eftirminnilegt mark á klakabundnum KR-velli og það kæmi mér ekki á óvart að kvennalandsliðið hafi nýtt sér upptökur af frammistöðu minni til að undirbúa sig fyrir Íra-leikinn núna í haust.

Svo lagði maður allt á sig til að geta fengið prófrétt í sjö kúrsum, og það tókst sem betur fer. Ég staðfesti vinnu á íþróttadeild moggans fyrir sumarið og að ég gæti fengið frí eitthvað fram í júní vegna ferðarinnar til Asíu. Mig minnir að ég hafi djammað eitthvað í apríl líka, til tilbreytingar.


MAÍ

Tvímælalaust eftirminnilegasti mánuðurinn. Kláraði síðustu prófin mín í b.s.-inum, pakkaði í töskur og skundaði með hraði út í Leifsstöð til að hefja magnaða ferð. Bara þetta eina kvöld í Danmörku áður en við héldum til Asíu hefði gert allar heimsóknirnar til fyrirtækja landsins til að betla pening þess virði. En frá Danaveldi héldum við til Kína, svo til Singapúr og loks Taílands. Ferðin tók þrjár vikur og mun aldrei líða manni úr minni, þetta var bara með því skemmtilegra sem ég heft gert frá byrjun.


JÚNÍ

Mætti skelþunnur í Laugardalshöll til að taka við bréfsnifsi til staðfestingar því að ég hefði lokið grunnnámi í verkfræði. Rektor sagði að ég væri snillingur (sagði hugsanlega að við værum öll snillingar) og allir voru hamingjusamir. Hélt smá útskriftarteiti vegna þess að Maggi sagði mér að gera það og það var mjög gaman, sérstaklega þegar Hrólfur mætti í tvær mínútur og sagði mér að ég hefði bætt á mig.

Svo byrjaði sumarvinnan ljúfa á mogganum. Vinna sem krefst þess meðal annars að ég fari og horfi á fótboltaleiki á iðagrænum grasbölum landsins, meira að segja í Vestmannaeyjum. Eða horfa á EM í fótbolta. Það er yndislegt. Svo spilaði ég meiraðsegja nokkra leiki sjálfur með Vinningsliðinu sem átti frábært sumar og fór í úrslitakeppni. Nánar síðar.


JÚLÍ

Ó júlí, þegar sólin skín og fuglarnir syngja bíbí. Þetta er nú eiginlega besti mánuðurinn að jafnaði, ekki satt? Strandblak, grillpartý og gleði. Og ég keypti mér miða á þjóðhátíð í Eyjum og byrjaði að telja niður dagana þangað til sú mikla gleðihátíð myndi byrja. En júlí var líka mánuður leiðinda því ég þurfti að kveðja einn af mínum allra bestu vinum þegar Helgi tók sig til og fluttist búferlum til Ástralíu. Hann er einmitt væntanlegur aftur í sumar.


ÁGÚST

Gæslugaurar á þjóðhátíð sáu heldur betur til þess að hún yrði eftirminnileg þegar þeir tækluðu mig niður á fyrsta kvöldi svo að það sem eftir lifði hátíðar gat ég ekki hreyft vinstri löppina mína heldur þurfti hálfpartinn að draga hana á eftir mér. Mjög hressandi. Hátíðin var samt mjög hressandi sem sýnir bara hvað ég hef fáránlega gaman að því að skella mér þangað.

Er heim var komið gat ég legið uppi í sófa og horft á handboltalandsliðið vinna silfurverðlaun á ólympíuleikum sem var sannarlega frábært. Ef þeir hefðu ekki verið á leikunum hefðu þetta verið hræðilegir ólympíuleikar fyrir Íslendinga.

Fékk mér líka hamborgara í þynnku á Fjölnisvelli. Ég mun aldrei gleyma þessum hamborgara. Þetta er besti börger sem ég hef smakkað frá fæðingu.

Svo fluttu fleiri vinir í burtu, Ragnar og Maggi fóru til Kína og voru fram í desember bölvaðir.

Vinningsliðið féll úr leik í carlsberg-deildinni. Athygli vakti að liðið tapaði nánast öllum leikjum sem ég gat ekki spilað, en ég missti af úrslitakeppninni eftir stælana á þjóðhátíð.


SEPTEMBER

Hmm, ég var löngu búinn að ákveða að fara ekki í skóla þannig að ég fékk að vera lengur á mogganum. Annars man ég ekki mikið hvað var í gangi en held að maður hafi byrjað að fylgjast ansi vel með fréttum því það var allt að fara á annan endann.


OKTÓBER

Fékk ýmsar óskemmtilegar fréttir. Til dæmis að ég fengi ekki að vinna lengur á mogganum frá og með mánaðamótum, að öll fyrirtæki sem eitthvað er varið í væru að skera niður en ekki ráða fólk, að ég væri búinn að barna einhverja stelpu, og að Liverpool ætlaði að vera í toppbaráttunni á þessu tímabili. Ísland fór bara til fjandans og maður reyndi að hughreysta sig með nokkrum köldum annað slagið. Fór að velta því fyrir mér að fara í skóla eftir áramót.


NÓVEMBER

Keypti mér kort í ræktinni þar sem ég sá fram á að hafa ekkert að gera í nóvember. Var svo bara í einhverju rugli á milli þess sem ég tók session þar.


DESEMBER

Alla jafna næstbesti mánuður ársins á eftir júlí. Elska alveg þennan jólafíling, sérstaklega þegar 24. des er runninn upp og fólk fer að gíra sig niður. Þá einhvern veginn detta allir inná sama rólegheitafíling og ég er alltaf í. Ég fékk vinnu á póstinum við að útdeila gleði sem var bara mjög gaman, og upplifði magnað jólahlaðborðskvöld með flestum nánustu vinum. Skráði mig í meistaranám í fjármálaverkfræði og mæti því galvaskur í skólann á miðvikudaginn. Svo át maður bara á sig gat yfir jólin og upplifði magnað áramótakvöld, einnig með flestum þeim nánustu.



Já, þetta var frábært ár að mörgu leyti þrátt fyrir þessa depurð í þjóðfélaginu á seinni hlutanum. Upp úr stendur að hafa klárað bessann á réttum tíma og svo þessi fáránlega skemmtilega útskriftarferð í kjölfarið.

Ég er samt alveg pottþéttur á því að 2009 verður ennþá betra.

En nú ætla ég að taka eina af mörgum hefðum sem fylgja jólafríinu hjá mér. Horfa á big fat quiz of the year 2008.

Takk fyrir samfylgdina á árinu og hafið það sem allra best um aldir alda.

mánudagur, desember 22, 2008

Sannarlega hafa þeir verið viðburðaríkir og hressandi þessir dagar sem ég hef verið að vinna hjá póstinum núna í desember, en vinnan hefur jafnframt verið þess valdandi að ég nenni aldrei að skrifa hérna heldur kem heim dauðþreyttur eftir vinnu á kvöldin, dett í einn dexter-þátt, og sofna svo værum blundi. Bið ykkur að afsaka það.

Já, dagarnir hafa flestir verið mjög hressandi en þó ekki allir. Versti dagur vinnunnar er án nokkurs vafa síðasti laugardagur. Vitandi það að ég þyrfti að vinna ætlaði ég vitaskuld ekki að djamma á föstudagskvöldinu og fannst því frábært þegar Maggi kínverski stakk upp á smá ölsopa og PES-spilun heima hjá sér. Gott og vel. Nokkru síðar var ég búinn með nógu mikinn bjór til að tapa fyrir Magga og við enduðum svo niðri í bæ vel kátir á kantinum.

Ég var svo minna kátur sem sagt á laugardeginum í vinnunni. Og þar sem ég var nánast allan daginn á mörkum þess að æla af þynnku þá var ég auðvitað alltaf að lenda í aðstæðum sem fóru langt með að ýta mér yfir þessi mörk. Til dæmis fór ég með pakka til einhverrar konu sem var að elda svo ógeðslega ógeðslegan mat að lyktin var eins og úr rassgati á svíni (mjög vond alla vega). Ég sver það, þó þessi kona yrði einhvern tímann tengdamóðir mín þá myndi ég aldrei mæta í mat til hennar. Svo fór ég með pakka til gamals, hvíts og feits kalls sem kom til dyra á brjóstunum. Það var virkilega viðbjóðsleg sjón. Tókst samt að halda ælunni niðri með ráðum og dáð.


Og þar sem ég er nú ungur og ferskur þá jafnaði líkaminn sig smám saman yfir daginn og ég var orðinn eldsprækur um kvöldið, sem betur fer. Þá fór fram jólafögnuður gents-manna og er óhætt að segja að hann hafi staðið undir væntingum. Venju samkvæmt get ég lítið tjáð mig um þetta á opinberum vettvangi enda innan hópsins menn sem stefna á frama í pólitík og þvíumlíkt, en þetta var meiriháttar geðveiki fram í fingurgóma að hætti hússins eins og maðurinn sagði.


Nú styttist óðfluga í jólin og ég er með allt mitt á tæru eins og venjulega. Ætla meiraðsegja bara að vinna 10-2 á aðfangadag. Rennur blóðið til skyldunnar að sendast með pakka fyrir letingjana sem biðu með pakkakaup fram á síðustu stundu. Svo dettur maður í jólagrautinn hjá ömmu úti á Nesi, sendist með einhverjar gjafir fyrir fjölskylduna, og verður bæði klappaður og klár þegar klukkan slær sex og hryggurinn fer að nálgast matarborðið. Djöfull verður þetta næs. Svo kemur vika af gleði sem m.a. inniheldur:

a)Rugl mikið matarát þar sem mér þykir jafnan vænst um hamborgarahrygginn á aðfangadag og svo að setjast fyrir framan sjónvarpið á jóladag með afganginn af Waldorf-salatinu. Djöfull er maður ógeðslegur.
b)Bjór og PES með Magga sínum, þó líklega minna en síðustu jól því miður.
c)Spil við ættingja og vini þar sem ég læt keppnisskapið e.t.v. hlaupa með mig í gönur. Í uppáhaldi er Trivial og Actionary.
d)Gláp á jólamyndir og eitthvað gott grín á borð við Dagvaktina.
e)Uppáhalds sjónvarspefnið mitt: Enska boltann, áramótaannálana, kjörið á íþróttamanni ársins og skaupið.
f)Eitthvað fleira sem er næs.


Ég óska öllum sem ég þekki gleðilegra jóla og ætla rétt að vona að þeim líði vel þarna úti. Ef einhverjum líður ekki nógu vel þá ætla ég líka rétt að vona að viðkomandi hafi samband. Hafið það sem allra best og verið góð við fólkið í kringum ykkur.

sunnudagur, desember 07, 2008

Ótrúlegt vesen þetta að vera farinn að vinna aftur dag eftir dag. En þetta skilar brauði á borðið svo það er jafn gott að bíta á jaxlinn og bölva í hljóði. Ég er náttúrulega búinn að vera að leita að einhverju hressandi djobbi en það er ekki svo létt akkúrat þessa dagana. En svo var ég að lesa gamlar bloggfærslur eftir sjálfan mig einu sinni sem oftar og rak augun í einhverja færslu um jólavinnu, og las komment eftir lesendur sem mæltu heils hugar með því að vinna við útkeyrslu hjá póstinum. Ég ákvað að slá til og sækja um slíkt og fékk vinnu út á kynþokkann að því er mér skilst.

Tók fyrstu tvo dagana í síðustu viku en þá var ég starfsmaður í þjálfun. Fékk að fljóta með kempu úr bransanum sem kenndi mér þetta allt en sagði líka góðar kempusögur af sextugum berbrjósta kellingum og fleiru slíku. Toppaði samt ekki Leifsson félaga minn sem fékk að líta sjötuga pjöllu á sínum sokkabandsárum í bransanum. Já, póstmennirnir lenda í ævintýrum á degi (bje eggertssyni?) hverjum.

Á morgun hætti ég að vera starfsmaður í þjálfun og verð starfsmaður á ferð og flugi, og fæ úthlutað einhverju hverfi. Það verður spennandi að sjá hvaða hluti borgarbúa fær bestu póstþjónustuna þessi jólin.

Gott að hafa fundið vinnu sem hæfir svona vel því námi sem ég hef lokið.
En þetta verður drullugaman, ég er alveg viss um það. Hef nú alltaf þotið út um höfuðborgina endilanga á aðfangadag með pakka handa ættingjum þannig að það má segja að ég sé að færa út kvíarnar. Sé mig fyrir mér með jólasveinahúfuna, hlustandi á hressandi jólalög og færandi fólki gleðileg jól með pökkunum sem ég verð sendur með. Svona eins og í jólaauglýsingunni frá póstinum. Svo er líka sæt stelpa með júllur að vinna þarna. Hef 16 daga til að gilja hana eða leggja drög að því. Óskið mér góðs gengis.

sunnudagur, nóvember 30, 2008

Sindri og róðrarvélin - sönn saga

Jæja, úr því það eru takmörk fyrir því hvað einn maður getur fundið margar afsakanir þá er ég byrjaður að stunda ræktina aftur. Þar kennir ýmissa grasa, en þar er einnig að finna elskuna mína sem ég jafnframt hata... róðrarvélina. Eftirfarandi átti sér stað í síðustu viku:

Sindri: Svo... við hittumst aftur róðrarvél.
Róðrarvélin: Rétt. Hvar hefuru verið? (sagði hún, og það vottaði fyrir söknuði í augum hennar) Ertu hræddur við mig..? Aumingi!
Sindri: Puhh, hræddur? Ég? Ertu að tala við mig?
*svo setti ég upp þennan svip*


Róðrarvélin: Mmmm, ég hef ekki séð þennan svip síðan 2005. Ég gleymi því aldrei Sverrisson.
Sindri: Kallaðu mig Sindra. Ég hef engu gleymt.
*Svo kom ég mér í stellingar og gerði mig kláran að hefja aksjónið*
Róðrarvélin: En... bíddu... ætlaru ekki að smyrja mig fyrst?
Sindri: Ég veit þú fílar það röff, bidds.

*Ég tók fyrsta hnykkinn og beitti öllum kröftum.*
Róðrarvélin: Úúú, ahh.
*Ég fann hvernig líkami minn ólgaði allur. Þvílíkur unaður. Fram, aftur, fram, aftur.*
Róðrarvélin: Ó já, hraðar, ekki hætta núna.
Sindri: En ég er bara tveggja mínútna maður!
Róðrarvélin: Hugsaðu um eitthvað annað (sagði hún með samanbitnar varir).
*Ég veit ekki hvernig það tókst en ég hélt áfram á fullu tempói í fleiri fleiri mínútur (a.m.k. fjórar!), þar til ég gjörsamlega sprakk.*
Sindri: Úff maður, þetta var næs.
Róðrarvélin: Já, ég væri til í smók núna.
Sindri: Amm, ég ætla að skella mér í sturtu. Hvað segiru um að gefa mér númerið þitt?
Róðrarvélin: Uuu, skráningarnúmerið? 4618CX128.
Sindri: Næs. Later.
Róðrarvélin: Farvel fagri prins.

föstudagur, nóvember 28, 2008

Farvel, lille havfrue.

Eitt af því sem mér liggur á hjarta þessa dagana er hve yndislega frábær einn lítill útvarpsþáttur getur verið. Sá þáttur heitir Litla hafmeyjan og er á hinni ríkisreknu Rás 2 á föstudagskvöldum. Nú huxið þið kannski "nei hvur andskotinn, hver hlustar á útvarp á föstudagskvöldum?" Svarið er auðvitað "enginn". Því er gott til þess að vita að hægt er að ná í þættina á vef ríkisútvarpsins og hlusta hvenær sem er vikunnar.

Þættirnir eru í umsjón Dodda litla og Andra Freys Viðarssonar sem flestir viti bornir menn muna eftir frá X-FM eða Reykjavík FM eða X-inu. Viti bornir menn hljóta einnig að vera sammála mér um það að Andri er alveg óhemju fyndinn náungi og Doddi er einnig góður. Saman eru þeir hins vegar yndislegir.

Og ég er ekkert að grínast með það hvílíkur eðall þessir þættir eru. Alltaf eitthvað gott grín í gangi, ferskt grín, og svo áhugaverðar umræður en undirtónninn þó ávallt léttur, eins og mér líkar best. Þeir félagar fá mig hreinlega til að gúddera hina skyldubundnu greiðslu afnotagjalda. Eða fengu. Fengu, því þessir þættir eru að fara að hætta núna í desember. Ég hef verið að láta mér detta í hug nokkrar ástæður:

1. Dagskrárstjóri rúv er hommi.
2. Það er ekki til peningur til að borga Dodda og Andra af því að Bubbi Morthens fær svo ógeðslega mikið borgað.
3. Það þarf að hafa fleiri fréttatíma af því það eru bara 200 fréttatímar á sólarhring á Rás 2.
4. Það er ómissandi hluti af aðventunni fyrir marga að Andri Freyr sé rekinn en þetta eru víst fjórðu jólin í röð sem slíkt gerist.


Ég er svo pirraður yfir þessum gangi mála að mér er skapi næst að stofna grúppu á facebook til að mótmæla þessum fáránlega niðurskurði og kasta eggjum í Þorgerði Katrínu. Geta þeir ekki rekið Óla Palla í staðinn? Eru ekki allir komnir með leið á honum sem eitthvað hlusta á útvarp?